Liv Bergþórsdóttir, stjórnarformaður Iceland Seafood, keypti í dag 1,2 milljónir hluta í Iceland Seafood á genginu 15,6 krónur á hlut, fyrir um 18,7 milljónir króna samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Iceland Seafood birti uppgjör í gær þar sem kom fram að reksturinn í Suður-Evrópu væri á batavegi en samrunar á Bretlandi hafi reynst kostnaðarsamari en búist var við. Hlutabréfaverð í Iceland Seafood lækkaði um 0,32% í gær. Hlutabréfaverð félagsins hefur nú hækkað um 25% frá áramótum eftir 7% lækkun síðustu þrjá mánuði.

Viðskiptin áttu sér að hluta til stað í gegnum félagið 54 ehf., sem er í eigu Livar, en hún er jafnframt forstjóri ORF Líftækni og fyrrverandi forstjóri Nova.

54 ehf., á 2,9% hlut Novator Nova ehf., sem nýlega seldi helmingshlut sinn í Nova til Pt. Capital. Novator Nova hefur greitt út 5,95 milljarða út til hluthafa með lækkun hlutafjár líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær . Hlutur 54 ehf. nam þar af um 170 milljónum króna.