Liv Bergþórsdóttir, Magnús Bjarnason og Jakob Valgeir Flosason munu skipa stjórn Iceland Seafood International.

Sjálfkjörið verður í stjórnina og varastjórn á hluthafafundi 5. febrúar næstkomandi. Framboðsfrestur rann út í dag.

Þar með mun Benedikt Sveinsson láta af störfum sem stjórnarformaður ISI eftir níu ár í stjórn og 40 ára aðkomu að rekstir ISI og foverum þess. ,,Ég hef starfað hjá Iceland Seafood International og forverum þess félags í fjóra áratugi og það er því með nokkurri eftirsjá en miklu stolti sem ég kveð félagið sem aldrei hefur staðið sterkar. Í dag er Iceland Seafood þekkt alþjóðlegt fyrirtæki með sterku starfsliði sem selur gæðavörur um allan heim. Ég óska félaginu, starfsfólki og samstarfsaðilum alls hins besta á þessum spennandi tímum sem fram undan eru,” er haft eftir Benedikti Sveinssyni.

,,Félagið stefnir að skráningu á aðallista Kauphallar Íslands á þessu ári og með kaupum ISI á Solo Seafood á síðasta ári hafa orðið töluverðar breytingar á hluthafahópi ISI. Sterkari tenging hefur orðið á milli uppruna afurða og markaða og því spennandi tímar fram undan. Það er með þakklæti í huga sem við kveðjum þá Benedikt og Mark úr stjórn ISI en með skýrri og sterkri sýn hafa þeir byggt upp ISI með þeim góða árangri eins og raun ber vitni,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International.

,,Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að starfa með Iceland Seafood International frá því ég fjárfesti í félaginu árið 2010. Félagið hefur náð góðum árangri á þessum tíma sem er í dag eitt af leiðandi fyrirtækjum á sínu sviði í Evrópu. Það er ekki síst því að þakka að félagið samanstendur af frábæru starfsfólki um allan heim sem hefur verið forréttindi að vinna með. Ég er afar ánægður með að skilja við fyrirtækið í höndum Bjarna Ármannssonar, nýs forstjóra, sem ég hef mikið álit á og veit að hann hefur þá þekkingu sem þarf til að koma fyrirtækinu á næsta stig. Ég óska honum og öllu starfsfólki félagsins alls hins besta á þeim spennandi tímum sem framundan eru. Þá vil ég sérstaklega þakka Benedikt Sveinssyni, sem hættir nú eftir áratuga störf fyrir félagið en samstarfið við hann hefur verið einstaklega ánægjulegt. Leiðtogahæfni hans sem stjórnarformanns og djúp þekking hans á starfsemi félagins hefur reynst mjög dýrmæt á þessum tíma, þá er ég ekki síst þakklátur fyrir vináttu okkar,” segir Mark Holyoake, fráfarandi stjórnarmaður ISI.

Stjórnina munu skipa:

  • Liv Bergþórsdóttir – Stjórnarformaður Wow air og Aur app, fyrrverandi forstjóri Nova.
  • Magnús Bjarnason – Stofnandi og framkvæmdastjóri MAR Advisors, fyrverandi forstjóri Icelandic Group.
  • Jakob Valgeir Flosason – Framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf, með áratuga reynslu í sjávarútvegi.

Í varastjórn verður:

  • Ingunn Agnes Kro – Lögfræðingur, framkvæmdastjóri rekstrar og samskipta hjá Skeljungi.