*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Fólk 23. mars 2020 10:28

Liv ráðin forstjóri ORF Líftækni

Liv Bergþórsdóttir tekur við sem forstjóri um næstu mánaðarmót. Stýrði áður Nova frá stofnun 2006 til 2018.

Ritstjórn
Liv Bergþórsdóttir verður forstjóri ORF Líftækni.
Aðsend mynd

Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi forstjóri Nova, hefur verið ráðin forstjóri ORF Líftækni og tekur við starfinu um næstu mánaðarmót. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Liv leiddi Nova frá stofnun árið 2006 og fram á mitt ár 2018, en fyrir það var hún meðal annars framkvæmdastjóri farsímafyrirtækisins Sko, og sölu- og markaðssviðs Og Vodafone og Tals. Liv hefur auk þess setið í fjölda stjórna bæði hérlendis og erlendis, meðal annars Wow air, og tók nýverið við stjórnarformennsku Keahótela.

Liv er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi við IESE Barcelona Business School.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að fá Liv til liðs við okkur“ er haft eftir Sigtryggi Hilmarssyni, stjórnarformaður ORF Líftækni í tilkynningunni. „Liv býr yfir mikilli reynslu við uppbyggingu fyrirtækja á neytendamarkaði og hefur verið farsæll stjórnandi fyrirtækja í örum vexti. Framundan er áframhaldandi sókn og uppbygging BIOEFFECT vörumerkisins á alþjóðlegum mörkuðum samhliða þróun annarra verkefna fyrirtækisins á líftæknisviðinu. Við teljum að reynsla og þekking Liv muni reynast afar vel á þeirri vegferð“.

Auk þess er haft eftir Liv sjálfri: „Ég hef haft gaman að því í gegnum árin að starfa í tæknigeiranum og hlakka til að gera það aftur hjá hátæknifyrirtækinu ORF Líftækni” segir Liv Bergþórsdóttir. Ég þekki fyrirtækið fyrst og fremst á eigin skinni sem notandi BIOEFFECT húðvaranna. Þetta eru hágæða húðvörur og markaðssetning þeirra hefur verið eftirtektarverð. Ég hlakka til að vinna með starfsfólki ORF að því að efla BIOEFFECT vörumerkið enn frekar og sókn þess á erlenda markaði. Þá verður jafnframt spennandi að vinna með ORF Líftækni að frekari vöruþróun og markaðsetningu á nýjungum. Það er vissulega sérstakt að taka við nýju starfi á tímum sem þessum en það eina í stöðunni er að halda áfram og horfa björtum augum til framtíðar.”