Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir að stjórn lífeyrissjóðsins verði að læra af þeim ábendingum sem fjármálaeftirlit Seðlabankans beinir til stjórnarinnar í tengslum við hlutafjárútboð Icelandair. Þá sé ljóst að ekki gangi að beita sjóðnum fyrir sig í kjarabaráttu. Stjórnarmenn í LIVE verði að vera óháðir í störfum sínum.

„Við hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna leggjum okkur öll fram um að ástunda góða stjórnarhætti. Að því sögðu þá eru þarna athugasemdir frá FME þar sem þau telja að stjórnarhættir hefðu geta verið með öðrum hætti og betri. Við getum ekki annað gert að taka þær athugasemdir til okkar og bætt það verklag sem við höfum haft,“ segir Guðrún í samtali við Viðskiptablaðið.

Seðlabankinn telur að ekki hafi verið gætt að hæfi stjórnarmanna LIVE áður en ákvörðun var tekin um hvort lífeyrissjóðurinn myndi taka þátt í hlutafjárútboð Icelandair. Sá helmingur stjórnarmanna LIVE sem tilnefndur eru af VR, lagðist gegn þátttöku LIVE í hlutafjárútboðinu en fulltrúar tilnefndir af Samtökum atvinnurekenda og Félagi atvinnurekenda studdu þátttökuna. Því féll tillagan um þátttöku LIVE í útboðinu á jöfnu.

Stjórnarmenn verði að vera sjálfstæðir

Í aðdraganda útboðsins sendi stjórn VR frá sér yfirlýsingu um að stjórnarmenn skipaðir af VR í stjórn LIVE ætti að leggjast gegn þátttöku í hlutafjárútboðinu eftir að viðræðum Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands var slitið. Sú yfirlýsing var svo dregin til baka nokkrum dögum síðar. Icelandair hefur í gegnum árin verið einn fjölmennasti vinnustaður félagsmanna VR.

„Mér þótti mjög óheppilegt að stjórn VR skyldi senda út þessa yfirlýsingu og vilja beita sjóðnum fyrir sig sem vopni í kjarabaráttu. Ég er enn á þeirri skoðun að það gengur ekki upp. Þó svo við hjá LIVE eigum þetta sterka bakland í samtökum launþega og samtökum atvinnurekenda þá erum við samt sem áður sjálfstæð í okkar störfum og getum ekki tekið við skipunum hvaðan sem þær koma," segir Guðrún.

Völdu ákvörðun LIVE verstu viðskipti ársins

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fór mikinn í kringum útboðið og sagði meðal annar að skipta ætti út allri yfirstjórn Icelandair. Eftir útboðið lýst Ragnar Þór svo yfir vantrausti á Guðrún Hafsteinsdóttir, eftir gagnrýni hennar á aðkomu VR að ákvörðun LIVE og bætti við að Guðrún ætti að „snúa sér að því sem hún gerir best, sem er að framleiða ís.“ en Guðrún er einn af eigendum Kjörís í Hveragerði.

Lífeyrissjóðurinn var stærsti hluthafi Icelandair fram að útboðinu. Eftir útboðið hækkaði hlutabréfaverð í Icelandair töluvert og valdi Markaður Fréttablaðsins ákvörðun stjórnarinnar um að fjárfesta ekki í Icelandair verstu viðskipti ársins.

Stefán Sveinbjörnsson, varaformaður LIVE og framkvæmdastjóri VR, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Stefán var formaður stjórnar LIVE þegar ákvörðun um fjárfesta ekki í Icelandair var tekin.