Lífeyrissjóður verzlunarmanna hækkaði í dag vexti á nýjum óverðtryggðum íbúðarlánum með fasta vexti til þriggja ára úr 5,72% í 6,09%. Lífeyrissjóðurinn hækkaði auk þess breytilega óverðtryggða vexti úr 2,83% í 2,89%.

Í lánareglum LIVE segir að vextir á nýjum óverðtryggðum lánum skuli breytast á þriggja mánaða fresti frá og með 15. október 2015 að telja, nema stjórn ákveði annað. Við ákvörðun vaxta og vaxtabreytinga er miðað við að vextir séu 1,0% hærri en meðalávöxtunarkrafa síðustu þriggja almanaksmánaða á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum á markaði, nú flokkur RIKB 31 0124, vegin eftir fjárhæð viðskipta hvers mánaðar.

Þar segir einnig að stjórn áskilji sér rétt til að miða við annað viðmiðunartímabil, sem og að líta til annarra viðmiða eins og vaxta ákvarðaða af Seðlabanka Íslands, ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum á markaði, sögulegrar og væntrar verðbólgu, vaxtakjara á markaði fyrir sambærileg lán sem og áhættumats sjóðsins.

Íbúðarlán hafa nokkuð verið til umfjöllunar í Viðskiptablaðinu undanfarnar vikur. Þannig var greint frá því að LIVE byði upp á nokkurs konar efri mörk vaxta á óverðtryggðum lánum auk þess sem ítarlega var farið yfir kosti og galla lána hjá stærstu lánveitendunum og nýjar vefsíður sem bera saman þau lán sem standa fólki til boða. Þá var einnig fjallað um að óverðtryggð lántaka hefði aukist talsvert það sem af er árinu.