Lífeyrissjóður verzlunarmanna festi kaup á 0,8% hlut í Festi, móðurfélagi N1, Krónunnar og Elko, í gær. Miðað við dagslokagengi Festi í gær má ætla að kaupverðið hafi numið 542 milljónum króna. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu.

Með þessu er LIVE orðið næst stærsti hluthafi Festi með 10,6% hlut sem er um 7,5 milljarðar króna að markaðsvirði. Einungis Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, er stærri en hann fer með 13,1% hlut í Festi.

LIVE var meðal fimm hluthafa sem fóru fram á margfeldiskosningu á hluthafafundi Festi í síðasta mánuði þar sem ný stjórn var kjörin. LIVE greiddi öll atkvæði sín með Hjörleifi Pálssyni sem náði kjöri í stjórnina.