Fimmtán af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru rauð í 4,1 milljarðs veltu á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Iceland Seafood og Origo leiddu lækkanir en gengi félaganna tveggja féll um meira en 2% í dag.

Mesta veltan var með hlutabréf Regins eða alls um 844 milljónir, en þar af voru ein viðskipti fyrir 320 milljónir sem duttu inn um hádegisleytið. Lífeyrissjóður verzlunarmanna var þar á söluhliðinni en með sölunni fór hlutur sjóðsins í Regin undir 10%, samkvæmt flöggunartilkynningu . Gengi fasteignafélagsins lækkaði um 1,9% í dag og stendur nú í 31,8 krónum á hlut en var í hæstu hæðum í 32,6 krónum á föstudaginn síðasta.

Icelandair var meðal þriggja félaga á aðalmarkaðnum sem hækkaði í viðskiptum dagsins. Gengi flugfélagsins hækkaði annan daginn í röð, þó aðeins um 0,3% í dag samanborið við 3,5% hækkun í gær. Icelandair tilkynnti um flutningatölur í gærkvöldi þar sem fram kom að sætanýting í Evrópuflugi hefði verið 78% í október. Play hækkaði einnig um 0,4% í dag.

Festi hækkaði um 0,9%, mest allra félaga í dag. Gengi smásölufyrirtækisins stendur nú í 222 krónum og hefur hækkað um 30% í ár.