Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, Guðmundur Þóroddsson, forstjóri og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að Mosfellsbær verði inni í áætlunum Orkuveitu Reykjavíkur um ljósleiðaravæðingu alls veitusvæðisins.

Orkuveita Reykjavíkur áformar að stærstum hluta verkefnisins í Mosfellsbæ verði lokið fyrir árslok 2010.

Fram kemur í yfirlýsingunni, sem er undirrituð með fyrirvara um samþykki stjórnar OR, að hverfi í sveitarfélaginu þar sem ljósleiðararör hafa verið lögð samhliða nýframkvæmdum eða endurnýjunum verða virkjuð ásamt þeim nýju hverfum sem eru í uppbyggingu og á áætlun sveitarfélagsins.