Hampiðjan mun kynna DynIce Optical Data, nýjan gagnaflutningskapal á sjávarútvegssýningunni í Reykjavík í næsta mánuði. Kapallinn inniheldur þrjá ljósleiðara sem geta flutt gríðarlegt gagnamagn frá trolli veiðiskips og upp í skip. Í hverjum ljósleiðara væri hægt að flytja heila kvikmynd á einum hundraðasta úr sekúndu.

Hingað til hafa höfuðlínukaplar gegnt sama hlutverki. Þeir eru tengdir í nema sem er ofan á trollinu við höfuðlínuna og tekur ratsjármynd af því og sendir í brúna, auk þess að veita upplýsingar um staðsetningu trollsins miðað við yfirborð og botn. Slíkir kaplar hafa hinsvegar notað koparþræði til að flytja upplýsingar, en þeir hafa mjög takmarkaða flutningsgetu.

„Þetta kemur til með að leiða algjöra byltingu. Sem dæmi verður hægt að sjá hvaða fiskur er að koma inn í trollið. Þegar fiskurinn færist aftur í trollið er þá hægt að mynda hvern og einn fisk til þess að tegundar- og stærðargreina hann. Draumur okkar er sá að þessi tækni verði nýtt  til að flokka fiskinn, þannig að bara ákveðin tegund og ákveðin stærð sé veidd, en öðrum sé einfaldlega sleppt. Þetta hefur ekki verið hægt fyrr en með tilkomu þessa nýja gagnaflutningskapals sem gefur upplýsingar í rauntíma,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, og bendir á að með þessu mætti draga verulega úr brottkasti.

„Það mun taka nokkur ár, jafnvel upp í áratug, að koma þessu í gagnið, en tæknilegi grunnurinn að slíku kerfi er kominn.“ Næsta skref sé að stoðgreinar hanni lausnir sem nýti þessa nýju möguleika.

Hampiðjan hefur átt í samstarfi við Stjörnu-Odda og Hafrannsóknastofnun um að búa til svokallaðan fiskgreini til að stærðarmæla og greina fisk. „Það er annað fyrirtæki úti í Noregi, Scantrawl, sem er komið vel áleiðis með að hanna svona tæki. Við viljum bara aðstoða og ýta undir alla sem eru að vinna að þessu sviði,“ segir Hjörtur, enda fari hagsmunir allra aðila greinarinnar saman í þessari þróun. „Okkar hagur í þessu er náttúrulega að geta selt kaplana.“

Aukin upplýsingasöfnun hjálpar við þróun veiðarfæra
Hin aukna upplýsingasöfnun sem kapallinn gerir mögulega nýtist ekki aðeins við veiðarnar sjálfar. Fullkomnari upplýsingar um hegðun fisksins og veiðarfæranna geta verið mjög verðmætar fyrir Hampiðjuna sjálfa við þróun þeirra. „Þetta kemur til með að auka aðgengi okkar að myndefni alveg með ólíkindum mikið. Skipstjórnarmenn eru mjög áhugasamir um að taka myndir, og það er þeirra hagur að gefa okkur eins miklar upplýsingar og hægt er, til að við getum hannað betri veiðarfæri fyrir þá. Í dag er hægt að setja myndavél á góðan stað í trollið, og við höfum nýtt okkur það mjög mikið til að sjá hvernig fiskurinn er að hegða sér á ákveðnum stað í trollinu. Við getum notað þær upplýsingar til að breyta uppsetningu veiðarfærisins.“

„Menn vilja eðilega að veiðarfærið flokki fiskinn eins og hægt er eftir stærð; sleppi minnsta fiskinum út til að hann haldi áfram að vaxa. Svo er auðvitað mikilvægt að forðast ákveðnar tegundir af fiski. Það er hægt að gera að nokkru leyti með veiðarfærinu sjálfu. Allt svona myndefni hjálpar okkur að skilja betur hvernig fiskurinn hegðar sér þegar hann er kominn inní trollið og þar með bæta okkar vöru.“

Með tilkomu kapalsins sparast auk þess mikil vinna við að kreista meira út úr takmarkaðri flutningsgetu gamla koparsins. „Ég held að það sé mikil þróun framundan í öllum þessum útbúnaði sem er settur á trollið. Gott dæmi er samstarf okkar við fyrirtækið Simrad sem framleiðir tæki fyrir sjávarútveg. Vöruþróunarstjórinn okkar, Jón Atli Magnússon, heimsótti þá nýlega, og þeir voru komnir með nema sem söfnuðu miklum upplýsingum, en þeir voru að bögglast við það að koma þeim frá nemanum upp í skip. Þeirra þróunarvinna miðaðist mikið við það hvernig hægt væri að þjappa gögunum sem mest saman til að hægt væri að flytja þau  í gegnum koparinn í rauntíma. Þegar nýi ljósleiðarakapallinn okkar var síðan kynntur fyrir þeim hættu þeir allri þróun á því sviði og endurskipulögðu vöruþróunaráætlun sína, enda ljóst að flutningsgetan verður ekki flöskuhálsinn í framtíðinni, heldur einfaldlega geta tækisins þeirra til að safna og miðla upplýsingum. Þarna er kominn grunnur að byltingu í veiðitækjum.“

Gæti haft notagildi mjög víða
Áhrifin hafa einnig náð út fyrir fiskveiðar, þar sem sterkur kapall með mikla gagnaflutningsgetu er kjörinn fyrir ýmisskonar rannsóknir á sjó. „Það sem er sérstakt við okkar kapal fyrir rannsóknarstarfsemi er að hann hefur styrk líka, á meðan hefðbundnir gagnaflutningskaplar sem hafa verið notaðir hingað til þola lítið átak. Það verður því hægt að nota einn og sama kapalinn til að slaka niður mælitæki eða búnaði og flytja upplýsingar til baka. Hingað til hafa þeir þurft að nota tóg annarsvegar, og annan lausan og viðkvæman kapal með.“

Ljósleiðarakapallinn er enn sem komið er mjög nýr og ekki kominn í almenna sölu því meiri prófanir á eftir að gera á sjó. „Við erum í samstarfi við Síldarvinnsluna og fyrsti ljósleiðarakapallinn fer á uppsjávarveiðiskipið Beiti á næstu vikum. Ljósleiðarinn er örgrannur glerþráður, mun grennri en mannshár, og hann þolir enga teygju og takmarkaða beygju. Það þurfti því að hanna kapalinn á sérstakan hátt til að verja ljósleiðarann fyrir þessu tvennu, og okkur virðist hafa tekist það eftir margra ára þróun og prófanir. Við höfum nú þegar einkaleyfi á kaplinum og að auki hefur verið sótt um fleiri einkaleyfi til að verja ýmislegt sem við höfum þróað og uppgvötað í þróunarferlinu. Við höfum verið styrktir af Tækniþróunasjóði Rannís undanfarin ár og hefur það verið mikill stuðningur því þróunarferlið er kostnaðarsamt. Hjörtur telur líklegt að þegar fram líða stundir komi í ljós að ljósleiðarakapallinn muni nýtast á annan ófyrirséðan hátt og opna þannig nýja möguleika og markaði fyrir Hampiðjuna.

Nánar er rætt við Hjört í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .