Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem BHM höfðaði gegn ríkinu vegna þeirrar ákvörðunar þess að skerða laun ljósmæðra sem stóðu vaktir á Landspítalanum í verkfalli Ljósmæðrafélags Íslands árið 2015. Ríkið var dæmt til að greiða ljósmæðrunum fjárhæðir sem nema hinni ólögmætu skerðingu ásamt dráttarvöxtum, auk málskostnaðar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá BHM.

Samkvæmt tilkynningu BHM er ljóst að niðurstaða Hæstaréttar hefur fordæmisgildi gagnvart öðrum fagstéttum sem vinna vaktavinnu á Landspítalanum og sættu launaskerðingum líkt og ljósmæður í verkfallinu árið 2015. Bandalag háskólamanna og hlutaðeigandi stéttarfélög munu fylgja því fast eftir að félagsmenn sem brotið hefur verið á fái hlut sinn leiðréttan.

Forsaga málsins er sú að í byrjun apríl 2015 efndu 18 stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna (BHM) til verkfallsaðgerða, þ. á m. Ljósmæðrafélag Íslands (LMFÍ). Félagið boðaði til ótímabundins verkfalls meðal félagsmanna sinna sem störfuðu á Landspítalanum. Verkfallið hófst 7. apríl og var ætlað að standa í lotum alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga þar til samningar næðust. Margar ljósmæður náðu að skila nánast fullri vinnuskyldu þrátt fyrir verkfallsaðgerðirnar. Engu að síður ákvað ríkið að halda eftir stórum hluta af launum þeirra. Við útreikning á launum ljósmæðra í verkfallinu var horft til mánaðarlegrar vinnuskyldu þeirra og laun sem samsvöruðu verkfallsdögunum dregin frá með tiltekinni aðferð. Þannig var ekki tekið tillit til raunverulegs vinnuframlags.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp 30. maí 2017 en ríkið ákvað að áfrýja þeim dómi í ágúst sama ár. Héraðsdómur taldi að aðferð ríkisins við að reikna út laun ljósmæðranna hefði hvorki staðist ákvæði kjarasamnings né meginreglur vinnuréttar. Ríkinu hafi borið að reikna þeim laun út frá því hversu hátt hlutfall vinnuskyldu sinnar þær inntu af hendi á verkfallstímanum. Fimm hæstaréttardómarar komust í dag einróma að þeirri niðurstöðu að dómur Héraðsdóms skuli standa óraskaður.

„BHM og Ljósmæðrafélag Íslands fagna því að búið sé að leiðrétta þá framkvæmd sem hefur viðgengist í nokkra áratugi hjá íslenska ríkinu að draga af launum fólks í verkfalli óháð raunverulegu vinnuframlagi. Með dómi Hæstaréttar í dag er staðfest að ljósmæður sem unnu utan lotuverkfalls eiga að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt. Niðurstaðan er í samræmi við meginreglu vinnuréttar um gagnkvæmni ráðningarsambands. Um leið felst í dómnum staðfesting á því að lotuverkföll eins og þau sem um ræðir í þessu tilviki hafa þá virkni sem þeim er ætlað að hafa," segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM í tilkynningunni.