*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 4. júlí 2018 17:40

Ljósmæður og fjármálaráðuneytið takast á

Hart er tekist á í kjaradeilu ljósmæðra sem nú stendur sem hæst.

Ritstjórn
Fjármálaráðuneytið
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Í gær birti fjármálaráðuneytið tölfræði og myndir sem varpa átti ljósi á kjaramál ljósmæðra. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í gær. Umfjöllun fjármálaráðuneytisins fékk töluverða gagnrýni og var fjármálaráðuneytið sakað um að útúrsnúninga. 

Guðlaug María Sigurðardóttir, ljósmóðir sem situr í kjaranefnd þeirra, ritaði grein sem birtist á Vísi í dag og bar heitið: Ljósmóðir í kjaranefnd ljósmæðra svarar fjölmiðlaumfjöllun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um kjör ljósmæðra.

Í greininni svarar hún umfjöllun fjármálaráðuneytisins og segir fjármálaráðuneytið ekki skyggnast nægilega vel á bak við tölurnar. Þá segir meðal annars að þó svo að um það bil 180 ljósmæður hafi útskrifast undanfarin ár þá hefur eðlilegt aldursbrottfall átt sér stað og stöðugildum á heilbrigðisstofnunum hefur ekki verið fjölgað. 

„Fæðingum hefur vissulega fækkað en í takt við samfélgsþróun hafa ýmsar og mjög stórar breytingar orðið á barneignarþjónustunni síðustu ár. Það er alveg út í hött að skoða eingöngu fæðingartölur til að átta sig áumfangi starfs ljósmæðra. Það vill svo til að meðgangan tekur 40 vikur +/- og ýmislegt getur komið upp á því tímabili," segir í greininni. 

Hún segir að andlegt og líkamlegt álag ljósmæðra sé afar mikið. Þær vinni á þrískiptum vöktum, margar af þeim taki aukavaktir og sumar hverjar oft í viku. Þá hafi hlutfall ljósmæðra sem þurftu frá að hverfa vegna langvinnra veikinda í apríl síðastliðnum verið 4,8%. 

Hún segir jafnframt að gagnrýnisvert sé að ljósmæður lækki í launum við það að bæta við sig menntun en ljósmæður hafa allar 6 ára háskólanám að baki, eða sem nemur 360 ETCS.

„Það er ekki sérstaklega faglegt að bera saman heildarlaun annara BHM félaga og ljósmæðra þar sem ljósmæður vinna kvöld, nætur, helgar og alla rauða daga 365 daga á ári og er eina félagið innan BHM sem vinnur á þenna hátt," segir í greininni. 

Síðdegis birti fjármálaráðuneytið tilkynningu þar sem ráðuneytið kom með sitt svar við greininni og þeirri gagnrýni sem umfjöllunin fékk.

Í tilkynningunni segir að útreikningar á launum ljósmæðra séu byggðir á nákvæmlega sömu forsendum og laun þeirra viðmiðunarhópa sem þær segjast hafa dregist aftur úr. Í þeim hópum eru líka starfsmenn í hlutastarfi en til þess að geta borið saman laun mismunandi hópa á sömu forsendum eru laun hópsins lögð saman og svo deilt í þau með fjölda stöðugilda miðað við 100% starf. Þá segir jafnframt í tilkynningunni að í greininni sé dæmi tekið af aðila í 70% starfi sem þýðir að vinnuframlag á viku er 28 klukkustundir eða rúmar 120 klukkustundir á mánuði.

„Í fréttinni er fullyrt að ekki sé hægt að vinna meira en „…80% vinnu án þess að brjóta hvíldartímaákvæðið“. Hvíldartímaákvæði takmarkar ekki möguleika á að vinna fullt starf og hefur ekki gert síðan þau komu inn í kjarasamninga 1997. Ákvæðið í kjarasamningi ljósmæðra er eins og allra annarra stéttarfélaga sem ríkið semur við og hefur verið óbreytt frá 1997 þegar samið var um innleiðingu vinnutímatilskipunar ESB," segir í tilkynningunni.