*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 3. maí 2015 12:45

Ljósmæður vilja herða verkfallsaðgerðir

Formaður Ljósmæðrafélags Íslands segir að allir sem koma í neyð fái auðvitað sína þjónustu.

Ritstjórn

Ljósmæður vilja herða verkfallsaðgerðir með því að færa aðgerðir yfir á heilsugæsluna, en með því myndi mæðravernd leggjast af. Þær íhuga einnig að taka strangar á undanþágum. Þessu greinir RÚV frá.

Ljósmæður hafa nú staðið í verkfalli í næstum mánuð. Ljósmæður í Reykjavík eru í verkfalli á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, og á Akureyri á mánudögum og fimmtudögum.

Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir stöðuna í viðræðum ekki vera góða. Það er að byrja fimmta vika verkfalla og ekkert sé að gerast af hálfu ríkisins. Hún segir að það virðist ekki vera neinn samningavilji. Það sé engin uppgjöf í ljósmæðrunum en að þær séu orðnar langeygar og vilja sjá eitthvað að gerast.

Áslaug bendir einnig á að ljósmæður eru í sameiginlegum aðgerðum BHM þannig að þetta snerti fleiri en þær. Þær séu að skoða hvort þær geti þyngt aðgerðir eitthvað eða hert róðurinn eða breytt. 

Hún segir að þær geti hert aðgerðirnar með því að færa þær yfir á heilsugæsluna. Þá myndi mæðraverndin leggjast niður. Þær geti einnig verið strangari á undanþágum. En þær þora því tæplega, öryggisins vegna.

Öllum hefðbundnum fæðingum hefur verið sinnt í verkfallinu. Sumar konur hafa þó ekki komist í keisaraskurð þegar það hefur verið planað og aðrar ekki í sónar á þeim tíma sem þær hafa ætlað. Áslaug segir að auðvitað sé eðli starfsins þó þannig að það sé erfitt að segja þvert nei. Allir sem koma í neyð fá auðvitað sína þjónustu.

Áslaug segir eðlilegt að ljósmæður fylgi launaþróun lækna, grunnnám til starfsréttinda sé jafnlangt, auk þess sem ljósmæður og læknar vinni mjög náið saman. Hún bendir á að byrjunarlaun ljósmæðra séu 390 þúsund eftir minnst sex ára háskólanám til starfsréttinda. Þær fari fram á almennilega hækkun grunnlauna.