Ljósmyndarafélag Íslands hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn íslenska ríkinu vegna meintrar ólögmætrar framkvæmdar þess síðarnefnda við myndatökur í vegabréf en þær fara nú nær eingöngu fram hjá sýslumönnum og lögreglustjórum um land allt.

Greint er frá málinu á heimasíðu Samtaka iðnaðarins. Þar kemur fram að forsaga málsins er sú að fyrir tilstuðlan dómsmálaráðuneytisins voru gerðar breytingar á þeim reglum sem giltu um útgáfu vegabréfa fyrr á þessu ári. Hófst útgáfa á nýjum íslenskum vegabréfum með örgjörva sem geymir sömu upplýsingar og voru sjáanlegar í vegabréfinu. Tilgangur hinna breyttu reglna mun m.a. hafa verið sá að laga íslenskar reglur að alþjóðlegum skuldbindingum vegna Schengen samstarfsins auk þess að fullnægja kröfum sem gerðar voru af hálfu ríkisstjórnar Bandaríkjanna til vegabréfa þeirra sem þangað vilja leggja leið sína.

Ljósmyndarar hafa allt frá því að útgáfa vegabréfa hófst hér á landi tekið ljósmyndir í vegabréf (passamyndir) og hafa haft af því verulegar tekjur. Á afgreiðslustöðum vegabréfa, þ.e. hjá sýslumönnum og lögreglustjórum um allt land, hefur verið komið upp myndavélum, þar sem umsækjendum er boðið að starfsmenn embættanna taki af þeim mynd sem fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru til myndanna. Myndin er tekin án sérstaks endurgjalds og þannig innifalin í venjulegu verði vegabréfa sem er 5.100 krónur

Með hinum nýju reglum um útgáfu vegarbréfa hefur orðið gerbreyting á töku ljósmynda í vegabréfin en það hefur haft þær afleiðingar fyrir ljósmyndara að passamyndataka þeirra hefur nánast lagst af.

Þar sem ljósmyndun er löggilt iðngrein hefur Ljósmyndarafélag Íslands krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að viðurkennt verði að, auk einstaklinga sem taka myndir í eigin vegabréf, sé ljósmyndurum einum heimilt að taka ljósmyndir í íslensk vegabréf. Þá gerir félagið einnig þær kröfur að viðurkennt verði að óheimilt sé að haga gjaldtöku við útgáfu íslenskra vegabréfa þannig að myndataka sé innifalin í kostnaði umsækjanda vegna útgáfu vegabréfs.

Mál þetta hefur fengið flýtimeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.