„Við viljum hafa eitthvað um það að segja hvar myndirnar okkar eru hýstar og viljum ekki að þær verði hjá Þjóðminjasafninu heldur Ljósmyndasfni Reykjavíkur,“ segir ljósmyndarinn Pjetur Sigurðsson. Hann er einn tíu fyrrverandi ljósmyndara Tímans og erfingja látinna höfundarrétthafa mynda úr safni Tímans, sem hafa stefnt íslenska ríkinu og Þjóðminjasafninu.

Risagjaldþrot Frjálsrar fjölmiðlunar

Forsaga málsins er sú að Frjáls fjölmiðlun fékk myndasafn Tímans samkvæmt samningi við Framsóknarflokkinn um útgáfu á Tímanum á tíunda áratug síðustu aldar. Frjáls fjölmiðlun, sem gaf m.a. út Fréttablaðið og DV og átti fjölda dótturfélaga, varð gjaldþrota árið 2002 og dagaði safnið uppi í þrotabúinu. Þjóðminjasafnið bað um að hýsa ljósmyndasafn Tímans og samþykkti skiptastjóri þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar það. Ljósmyndararnir telja að Þjóðminjasafnið hafi afhent óviðkomandi ljósmyndir úr safninu til notkunar án samþykkis stefnenda enda liggur enginn samningur fyrir á milli þeirra og Þjóðminjasafnsins um nýtingu. Skiptum á þrotabúi Frjálsrar fjölmiðlunar lauk í júlí árið 2007. Kröfur námu tæpum 2,2 milljörðum króna. Kröfuhafar, sem voru Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing, fengu til skiptanna 331 milljón króna.

Pjetur, hinir ljósmyndararnir og afkomendur annarra ljósmynda sem eiga myndir í safni Tímans hafa í gegnum tíðina talið á sér brotið enda hafi skiptastjóri þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar ekki haft þá í ráðum þegar hann ráðstafaði ljósmyndasafninu. Þeir stefndu því árið 2012 Katrínu Jakobsdóttur, þá menntamálaráðherra, og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði, vegna málsins.

Fyrirtaka er í máli ljósmyndaranna og afkomenda þeirra sem eiga myndir í safni Tímans gegn íslenska ríkinu og Þjóðminjasafninu í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.