© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Öllum ljósmyndurum bandaríska dagblaðsins Chicago Sun-Times hefur verið sagt upp. Þeir voru 28 talsins. Í stað ljósmyndara fá blaðamenn afhenta iPhone-síma sem þeir eiga að nota til að taka ljósmyndir og myndskeið. Netmiðillinn Cult of Mac , sem flytur aðallega fréttir af málum tengdum Apple, segir þróunina í þá átt að skipta hefðbundnum myndavélum út fyrir farsíma með myndavélum.

Í umfjöllun netmiðilsins er rifjað upp að þegar fellibylurinn Sandy gekk yfir New York-borg í fyrra hafi blaðamenn tímaritsins Time tekið myndir af vettvangi og sent þær á Instagram-síðu blaðsins. Blaðið hafi nýtt tæknina í meiri mæli en áður og meira að segja forsíðumynd vikuritsins verið tekin á iPhone-síma.

Cult of Mac hefur reyndar eftir einum ljósmyndaranna sem sagt var upp, að skrefið sem stigið hafi verið hjá blaðinu sé fáránlegt, ekki sé hægt að skipta ljósmyndurum út fyrir blaðamenn með síma.