Canon í Evrópu útnefndi ljósmyndarann Ragnar Axelsson, sem löngum er þekktur sem RAX, sem eins konar sendiherra Canon hér á landi á fimmtudag og hlaut hann titilinn Canon Explorer. Tilkynnt var um valið á sérstakri Canon-ráðstefnu Nýherja. Á meðal annarra sem hlotið hafa sendiherrastöðuna hjá Canon eru margir af bestu kollegum Ragnars í greininni í Evrópu.

Ragnar segir í samtali við VB sjónvarp starf ljósmyndarans hafa breyst í gegnum tíðina og það ekki endilega til hins betra fyrir ljósmyndara. Þá hafi gæðum ljósmynda í fjölmiðlum hrakað eftir að byrjað var að taka ljósmyndir á farsíma.

Sjálfur er Ragnar með mörg járn í eldinum. Hann er að klára nokkrar bækur, eina um smalamennsku, aðra um bráðnun jöklanna á báðum pólunum og vinnur að útgáfu eldri verka fyrir erlenda markaði. Þessu til viðbótar vinnur hann að barnabók.