Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur verið mikið í sviðsljósinu síðustu daga en sem kunnugt er hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, lagt mikla áherslu á að koma Jóni út úr ríkisstjórn.

Jón hefur reynst Samfylkingunni erfiður í aðildarferlinu að Evrópusambandinu. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart enda hefur Jón lengi verið andsnúinn því að ganga í sambandið, líkt og aðrir forystumenn Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs (VG) voru áður. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá um síðustu mánaðamót fékk Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, umboð þingflokksins til að „leysa mál“ Jóns Bjarnasonar en í lok nóvember hafði Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýnt Jón með mjög harkalegum og áður óþekktum hætti. Það fól í sér að Jóni yrði bolað út úr ríkisstjórninni sem þó hefur ekki gerst enn.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.