Upplýsingatæknifyrirtækið Controlant, sem þróað hefur vöktunarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn, lauk í gær lokuðu útboði á breytanlegum skuldabréfum að fjárhæð 1.250 milljónir króna. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hafði umsjón með útboðinu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að núverandi hluthafar hafi skráð sig fyrir um það bil 40% af útboðinu. Alls hafi þátttakendur í útboðinu verið á fjórða tug. Skuldabréfin séu að hluta til breytanleg í hlutabréf í félaginu.

Sjá einnig: Sjá fram á veldisvöxt í veltu

„Controlant hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum
vörum í flutningi og geymslu. Lausnir félagsins gera viðskiptavinum kleift að minnka sóun í virðiskeðjunni,
auka öryggi og tryggja gæði, sem skilar sér í verulegum ávinningi. Félagið bindur vonir við að fyrir lok árs
verði sex til átta af stærstu lyfjafyrirtækjum heims á meðal viðskiptavina félagsins,“ segir loks í tilkynningunni.