Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, fyrir hönd PCC BakkiSilicon hf., hefur lokið fjármögnun á kísilmálmverksmiðju félagsins sem mun rísa á iðnaðarsvæðinu að Bakka við Húsavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Heildarfjármagn til verkefnisins nemur um 300 milljónum dala, jafnvirði tæpra 40 milljarða íslenskra króna, en þar af leggja íslenskir fjárfestar til 80 milljónir dala. Þýski bankinn KfW IPEX Bank GmbH er aðallánveitandi verkefnisins.

„Við hjá Íslandsbanka erum ánægð með þennan mikilvæga áfanga í PCC BakkiSilicon verkefninu. Verkefnið er jákvætt og mikilvægt skref fyrir íslenskt efnahagslíf og styður ríkulega við atvinnuuppbyggingu á norðurlandi og fjárfestingu í landinu,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Rúmur fjórðungur fjárfestingarinnar kemur frá fyrirtækinu Bakkastakki í formi lánsfjármögnunar og forgangshlutafjár í PCC BakkiSilicon hf., félaginu sem stofnað hefur verið utan um verkefnið. Eigendur Bakkastakks eru á annan tug lífeyrissjóða ásamt Íslandsbanka.  Ráðgjafar Bakkastakks voru Summa Rekstrarfélag hf..

Búast má við að framkvæmdin skapi 120 störf í verksmiðjunni sjálfri og eru þá ótalin afleidd störf. Verkefnið var um tíma háð fyrirvörum frá Eftirlitsstofnun EFTA varðandi samninga verksmiðjunnar við Landsvirkjun og Landsnet. Þeim fyrirvörum hefur nú verið að fullu aflétt.