*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 30. nóvember 2018 15:01

Ljúka fimm milljarða sölu

Félagið Strax, í meirihlutaeigu Ingva Týs Tómassonar og Guðmundar Pálmasonar, hefur selt dótturfélag fyrir fimm milljarða.

Ingvar Haraldsson
Ingvi Týr Tómasson hefur unnið að uppbyggingu Strax í á þriðja áratug.
Haraldur Guðjónsson

Félagið Strax, sem er í meirihlutaeigu Ingva Týs Tómassonar og Guðmundar Pálmasonar, hefur selt dótturfélagið Gear4 fyrir 35 milljónir evra, um fimm milljarða króna til félagsins ZAGG. Kaupverðið gæti hækkað um 9 milljónir evra, um 1,3 milljarða króna eftir því hvernig sala félagsins þróast á næsta ári samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Strax sérhæfir sig í sölu aukahluta í farsíma er skráð á markað í sænsku kauphöllinni. Félagið var stofnað af Ingva Tý og Óla Bieltvedt árið 1995 og er með starfsemi í tólf löndum. 80% af kaupverðinu er greitt með reiðufé og 20% með hlutafé í ZAGG, sem skráð er í kauphöllina í New York og er einnig leiðandi í sölu á aukahlutum í farsíma.

Þegar greint var frá viðskiptunum klukkan tvö í dag nam markaðsvirði Strax um fjóra milljarða króna. Strax fékk því meira fyrir dótturfélag sitt en félagið var metið á í heild áður en greint var frá viðskiptunum. Síðan tilkynningin var send út hefur hlutabréfaverð í Strax hækkað um 43% og er nú metið á ríflega sex milljarða króna.

Haft er eftir Guðmundi Pálmasyni, sem er jafnframt forstjóri Strax, í tilkynningu vegna kaupanna að salan sýni fram á það góða starf sem unnið sé innan Strax. Með sölunni skapist tækifæri fyrir Gear4 að vaxa frekar og ná inn á nýja markaði, sérstaklega í Norður-Ameríku. Þar sem ZAGG sé leiðandi félag í sölu á aukahlutum fyrir farsíma gæti Gear4 ekki hafa fundið betri eiganda.  Logos í London var lögfræðilegur ráðgjafi Strax í viðskiptunum. 

Byrjuðu í farandsölu í Suður-Ameríku

Saga Strax er um margt merkileg. Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun nóvember sagði Ingvi að fyrirtækið hafi verið stofnað eftir að hann flutti til Bandaríkjanna árið 1995. „Ég var búinn að lesa það að flestallir milljónamæringar í Ameríku væru í fasteignum, þannig að ég flutti til Miami árið 1995 og ætlaði að verða viðskipta maður í fasteignum og byrja sem fasteignasali. Óli Bieltvedt, vinur minn, bjó í Hong Kong og hafði þá samband og sagði: „Ég er í Hong Kong með aðgang að Asíu og þú ert í Miami, með aðgang að Suður-Ameríku.“ Ég sló til. Fyrsta árið ferðaðist ég um Suður-Ameríku með allskonar varning, sem voru afgangar af lagerum í Kína, mest kvenfatnað. Við hittum á aðila í Venesúela sem voru að reka þrjátíu kvenfataverslanir og fyrsta árið seldi ég kvenfatnað fyrir meira en milljón dollara. Þetta var mjög sérstakt. Ég talaði enga spænsku og var að ferðast um Suður-Ameríku með töskur af öllum þessum varningi sem ég var að selja, bíðandi á biðstofum með mönnum með hænur og ýmislegt fleira eftir að fá að hitta eigendurna,“ sagði Ingvi sem er einnig framkvæmdastjóri HBT hf., móðurfélags Hamborgarbúllu Tómasar og sonur Tómasar Tómassonar eða Tomma í Búllunni.