Ísafold Capital Partners lauk fjármögnun á lánasjóðnum MF3 í lok árs 2022. Stærð sjóðsins er 7,4 milljarðar króna og mun hann taka þátt í fjárfestingaverkefnum íslenskra fyrirtækja og fjárfesta, að því er kemur fram í tilkynningu.

MF3 er þriðji sjóður Ísafoldar. MF1 slhf. var stofnaður í upphafi árs 2016 og verður slitið á árinu 2023. Sjóðurinn var 4 milljarðar króna að stærð og fjárfesti í 12 verkefnum. MF2 hs. var stofnaður seint á árinu 2020 og hefur fjárfest í 11 verkefnum. MF2 var 4,9 milljarðar króna að stærð.

„Það er óhætt að segja að við séum stoltir af því trausti sem fjárfestar sýna okkur aftur,“ segir Gísli Valur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ísafoldar Capital Partners.

„Um 50% aukning er í fjölda fjárfesta og stærð sjóðsins frá MF2. Framundan eru áhugaverðir tímar í íslensku efnahagslífi með krefjandi áskorunum sem og spennandi tækifærum. MF3 getur, líkt og forverar sínir, boðið upp á óhefðbundna fjármögnunarmöguleika og sveigjanleika sem getur hjálpað fyrirtækjum að vera betur í stakk búin til að mæta áskorunum og grípa tækifæri.“

Ísafold Capital Partners var stofnað árið 2009 og er sjálfstætt starfandi sjóðastýringarfyrirtæki með starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Félagið sérhæfir sig í rekstri sjóða með áherslu á fjárfestingar í lánum og lánatengdum afurðum. Félagið er í fullri eigu starfsmanna.

„Fyrri MF sjóðir félagsins hafa m.a. komið að fjármögnun á skuldsettum yfirtökum, fasteignaverkefnum og fjármögnun vaxtartækifæra, svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt hafa sjóðir félagsins í einhverjum tilfellum komið að fjármögnun verkefna með hlutafjárframlögum samhliða lánveitingu.“