Solid Clouds lauk mikilvægum áfanga í þróun á leik sínum Frontiers í desember síðastliðnum þegar fyrsta útgáfa af leiknum fór í prófun hjá 2.000 spilurum í Asíu. Er þetta annar leikurinn sem félagið gefur út.

Tilgangur þessara prófana var annars vegar að mæla stöðugleika og frammistöðu netþjóna Frontiers og til að athuga hversu vel leikurinn keyrir á ýmsum gerðum snjalltækja og hins vegar hversu aðgengilegur og skiljanlegur hann er fyrir nýja spilara.

„Netþjónar leiksins stóðust álagið með prýði og hægt var að spila hann á langflestum gerðum snjalltækja. Solid Clouds safnaði einnig mikilvægum upplýsingum um hvernig spilarar skildu viðmót og leikkerfi Frontiers. Slíkar prófanir eru afar mikilvægar til að þróa góðan leik og gerir okkur kleift að flýta framleiðslu hans,” er haft eftir Stefáni Gunnarssyni, forstjóra Solid Clouds, í fréttatilkynningu.

Sjá einnig: Solid Clouds gefur út nýjan Starborne leik

Umræddar prófanir stuðla að því að Frontiers keyri hnökralaust á ýmsum gerðum snjalltækja og fangi athygli spilara. Næsti stóri þróunaráfangi leiksins verður á miðju árinu þegar prófanir hefjast á grunnútgáfu hans, þar sem helstu leikþættir verða til staðar (e. Minimum Viable Product, MVP).

„Það var frábært að geta farið með Frontiers í prófun eftir aðeins sjö mánuði í framleiðslu og fengið verðmæt viðbrögð frá okkar spilurum. Við erum mjög spennt fyrir næstu skrefum í framleiðslu leiksins,“ segir Stefán.

Frontiers Starborne - Solid Clouds leikur
Frontiers Starborne - Solid Clouds leikur
© Aðsend mynd (AÐSEND)