Wikborg Rein hefur lokið rannsókn á starfsemi Samherja í Namibíu. Niðurstöður rannsóknarinnar verða þó ekki birtar opinberlega fyrr en eftir frekari fundarhöld við viðeigandi stjórnvöld. Þetta kemur fram á vefsíðu Samherja .

Í nóvember 2019 voru settar fram ásakanir á hendur Samherja vegna rekstrarins í Namibíu. Stjórn Samherja fól í kjölfarið norsku lögmannsstofunni Wikborg Rein að aðstoða við rannsókn á starfseminni og að leiða í ljós allar staðreyndir um hana.

Starfsmenn Wikborg Rein fóru yfir og greindu meira en eina milljón skjala á meðan rannsóknin stóð yfir. Þá tóku þeir viðtöl við allmarga starfsmenn Samherja og framkvæmdu rannsóknir í mörgum löndum, þar á meðal í Namibíu.

Samið var við endurskoðunarfyrirtækið Forensic Risk Alliance (FRA), sem sérhæfir sig í réttarreikningsskilum, um að yfirfara og greina fjölda millifærslna sem tengjast starfseminni í Namibíu. Að lokinni átta mánaða vinnu hefur Wikborg Rein skilað ítarlegri skýrslu með helstu niðurstöðum.

„Strax í byrjun vorum við sannfærð um að sumar þessara ásakana væru tilhæfulausar og ættu ekki við nein rök að styðjast,“ er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni, stjórnarformanni Samherja. Hann segir að stjórn fyrirtækisins hafi verið misboðið vegna fullyrðinga um að Samherji hafi arðrænt þróunarríki og tekið stóran hluta hagnaðar úr landi.

„Heildarskattar sem félög tengd Samherja greiddu í Namibíu í gegnum árin, þar með talið tekjuskattur, launatengdir skattar, útflutningsgjöld, innflutningsgjöld, og fjöldi annarra greiðslna til ríkissjóðs Namibíu, voru samtals að jafnvirði um fjögurra milljarða króna. Það er í sjálfu sér merkilegt í ljósi þess að þegar upp var staðið var taprekstur af starfseminni,“ segir Eiríkur.

„Það er ekkert nýtt fyrir Samherja að skipulag og starfsemi fyrirtækisins sæti ítarlegri skoðun.  Í Seðlabankamálinu var starfsemi Samherja til rannsóknar í sjö ár og lauk henni með algjörum fullnaðarsigri fyrirtækisins.“

Í tilkynningu Samherja segir að fyrirtækið hafi hrint í framkvæmd ráðstöfunum sem miða að því að verja fyrirtækið fyrir misgjörðum einstakra starfsmanna, „löngu áður en niðurstöður Wikborg Rein lágu fyrir“.

Hinn 17. janúar á þessu ári kynnti Samherji áform um innleiðingu á sérstöku kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu en það mun ná til samstæðunnar allrar. Vinna við innleiðingu kerfisins er vel á veg komin og er stefnt að því að taka það í notkun síðar á þessu ári.

Samherji lauk starfsemi sinni í Namibíu fyrir árslok 2019 en mun áfram eiga samskipti við stjórnvöld þar í landi. Ákvörðun um opinberlega birtingu niðurstöðu rannsóknarinnar verður tekin í kjölfar funda Wikborg Rein með fulltrúum viðeigandi stjórnvalda.

„Við munum fjalla nánar um niðurstöður rannsóknarinnar og hrekja þær ásakanir sem vöktu hörð viðbrögð hjá okkur strax þegar þær voru settar fram í fyrra. Við höfum virt allt þetta ferli og leyft rannsókninni að hafa sinn gangveru,“ segir Eiríkur.

„Af þessum sökum höfum við ekki brugðist opinberlega við öllum ásökunum þrátt fyrir að full ástæða hafi verið til þess frá upphafi. Að sama skapi viljum við að rannsóknir opinberra aðila gangi eðlilega fyrir sig.  Engu að síður munum við á næstu vikum taka skýrari afstöðu opinberlega til einstakra mála og fjalla nánar um einstök atriði en við höfum gert hingað til.

Þá ber að undirstrika að Samherji hafnar því alfarið að stjórnendur fyrirtækisins hafi nokkru sinni hlutast til um að nokkurt dótturfyrirtækja þess stundaði vafasama viðskiptahætti, þar á meðal mútugreiðslur eða peningaþvætti, í því skyni að ná fram fjárhagslegum ávinningi og mun andmæla kröftuglega frekari ásökunum í þá veru,“ bætir Eiríkur við.