Söluferli Já hf., sem rekur vefsíðuna Já.is, tafðist út af heimsfaraldrinum. Upphaflega stóð til að það færi af stað fyrri hluta síðasta árs en reyndin varð sú að það hófst í byrjun þessa árs. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársreikningi samlagsfélagsins Auðar 1 fagfjárfestasjóðs.

Sjóðnum var komið á fót árið 2008, stærð hans var 3,2 milljarðar króna og stærsti hluti fjárfesta voru lífeyrissjóðir. Eina eign sjóðsins sem eftir stendur er móðurfélag Já.

125 milljóna króna tap varð á rekstri sjóðsins í fyrra, samanborið við 73 milljóna króna hagnað 2019, sem rekja má til neikvæðra matsbreytinga á fjárfestingum. Eigið fé sjóðsins er 560 milljónir króna og skuldir engar. Í ársreikningum segir enn fremur að faraldurinn hafi haft „nokkuð neikvæð“ áhrif á rekstur Já og stefnt sé að því að ljúka sölu á félaginu á næstu mánuðum.