Hlutabréf í Japan og Ástralíu lækkuðu í dag. Að sögn Bloomberg er ástæðan annars vegar sú að lækkandi hrávöruverð dró niður hlutabréf í námufyrirtækjum og hins vegar gjaldþrot byggingavöruverslunarinnar Morimoto í Japan, en með því varð gjaldþrotatíðni þar í landi hærri en hún hefur áður verið eftir stríð.

DJ Asia-Pacific hlutabréfavísitalan lækkaði um 0,7%. Nikkei í Japan lækkaði um 1,4%, hlutabréf í Ástralíu lækkuðu um 1,5%, í Suður-Kóreu um 1,6% og í Singapúr um 0,8%.

Hækkun í Kína og á Indlandi

Hlutabréf hækkuðu á hinn bóginn í Kína, bæði í Sjanghæ, um 1,3%, og í Hong Kong, um 2,1%. Þá hækkuðu hlutabréf á Indlandi, en Bombay Sensex vísitalan hækkaði um 1,7%. Það er einmitt í Bombay, eða Mumbai eins og borgin er nú kölluð, sem fjöldi manna hefur fallið í hryðjuverkaárásum undanfarna daga.