Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag, annan daginn í röð en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja lækkanir dagsins, líkt og í gær, til lækkana á framleiðsluvörum á borð við kopar, málm, gull og olíu.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, lækkaði um 0,8% en hafði þó lækkað um 1,5% innan dags í dag. Þá hefur vísitalan lækkað um 14% það sem af er þessu ári.

Líkt og fyrr segir eru það lækkandi verð á hrá- og framleiðsluvörum sem eru að draga markaðir niður. Brent olían lækkaði um 2% á mörkuðum í Lundúnum, gull lækkaði um 3%, ál um 1,3%, kopar um 2%, málmur um 1,4% og nikkel um 2,8% svo dæmi séu tekin.

Í kjölfarið lækkuðu félög á borð við Shell, BG Group, Repsol, Total og StatoilHydro um 1,4% - 3,1%.

Bankar og fjármálafyrirtæki hækkuðu þó í dag en náðu samt ekki að halda mörkuðum á floti. Þannig hækkaði UniCredit um 19% eftir að hafa gefið út jákvæða afkomuspá, Barclays lækkaði um 5,2%, Royal Bank of Scotland um 4,1% og Societe Generale um 3,9% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,4%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,7% en í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan reyndar um 0,2%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,25% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,6%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,5%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,3% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,9%.