Flestir hlutabréfamarkaðir lækkuðu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

Einn viðmælenda Reuters kemst þó þannig að orði að stanslausar neikvæðar fréttir beggja megin Atlantshafsins fæli frá fjárfesta í miklu magni.

FTSE 300 vísitalan lækkaði um 0,3% en hafði þó lækkað um 1,5% fyrr í dag þannig að hún komst lítillega til baka seinni part dags.

Fjárfestingafélagið Swiss Re lækkaði um 28% eftir að félagið tilkynnti um tap upp á um einn milljarða svissneskra franka í morgun þrátt fyrir að Warren Buffett, ríkasti maður heims tilkynnti um leið að hann myndi fjárfesta um 3 milljarða franka í félaginu.

Þá lækkaði Deutsche Bank um 4,5% í dag eftir að hafa birt neikvætt uppgjör sitt í morgun.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,1%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,9% en í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,4%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,1% og í Sviss lækkaði SMI um 2,3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,4%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,4% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,8%.