Hlutabréf lækkuðu á mörkuðum í Evrópu í dag eftir að hafa þó hækkað við opnun í morgun.

Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja lækkanir dagsins til möguleika um minnkandi eftirspurn framleiðsluvara á sama tíma og kostnaður er að aukast hjá framleiðslufyrirtækjum.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 0,8% eftir að hafa hækkað um 0,2% við opnun í morgun.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,2%, í Amsterdam stóð AEX vísitalan í stað og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan hins vegar um 0,8% en í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1% en í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,7%.

Mest varð hækkunin þó í Osló þar sem OBX vísitalan hækkaði um 2,8%.