Mikil hækkun hlutabréfamarkaða á föstudag virðist ætla að duga skammt því nú þegar markaðir hafa verið opnir í um klukkustund á Wall Street hafa allar vísitölur lækkað og eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þannig hefur Nasdaq lækkað um 1,3%, Dow Jones um 1,2,% og S&P 500 vísitalan um 1,5%.

Eins og fyrr segir eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir dagsins en fram kemur bæði á Bloomberg og Reuters að mikil óvissa ríkir meðal fjárfesta um næstu „björgunarskref“ bandarískra yfirvalda.

Sveiflur í Evrópu

Í Evrópu hafa flestar vísitölur lækkað aftur eftir að hafa hækkað rétt fyrir hádegi. Reyndar hafa hlutabréfamarkaðir í Evrópu sveiflast nokkuð í dag. Þeir lækkuðu strax við opnun í morgun, flestir hækkuðu eða náðu á núllið síðla morguns en hafa nú eins og fyrr segir lækkað aftur.

Þannig hefur FTSEurofirst 300 vísitalan nú lækkað um 0,4% en hafði um tíma hækkað um 0,6% fyrir hádegi að íslenskum tíma.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 0,7%, í Amsterdam stendur AEX vísitalan í stað og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,3%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 0,7% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 0,9%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 0,4%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 0,6% en í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 0,6% og er þar með eina vísitalan áamt íslensku Úrvalsvísitölunni sem hefur hækkað í dag.