Markaðir lækkuðu nokkuð í Bandaríkjunum í dag, Nasdaq hlutabréfavísitalan um 0,85% en Dow Jones og S&P 500 óverulega. Að sögn Wall Street Journal er skýringanna að leita í áframhaldandi áhyggjum fjárfesta af lánsfjármarkaðnum, auk þess sem olíuverð hækkaði. Olían hækkaði um 3,40 USD í 90,50 USD á tunnu.

Ólíkt bandarískum hlutabréfum þá hækkuðu hlutabréf í Evrópu almennt í verði, víðast hvar á bilinu 1-2%. Skýringin er sögð vera bætt afkoma í fjarskiptageiranum eftir að sala France Telecom var umfram væntingar. Ennfremur mun bjartsýni hafa aukist á frekari vaxtalækkanir í Bandaríkjunum, þó að hún hafi ekki dugað til að lyfta mörkuðunum þar.