Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja lækkanir dagsins til þeirrar óvissu sem enn ríkir á mörkuðum í Bandaríkjunum auk ummæla Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrópu þar sem hann í dag sagði að líklega myndi hægja enn frekar á hagkerfi evru svæðisins.

Seðlabanki Evrópu ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum en gaf til kynna að lækkun stýrivaxta væri mögulega framundan.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 1,3% í dag en hafði þó um tíma í morgun hækkað um 0,3%. Vísitalan hefur nú lækkað um 30% það sem af er ári.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,8%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1% en í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,3% en í Sviss stóð SMI vísitalan í stað við lok markaða.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,5%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1% en í  Osló lækkaði OBX vísitalan hins vegar um 6,6%.

Bandaríkin

Í Bandaríkjunum hafa markaðir einnig lækkað. Þannig hefur Nasdaq lækkað um 2,9%, Dow Jones um 2,3% og S&P 500 vísitalan um 2,7%.