Flestir hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur Evrópu, lækkaði um 0,8% í dag og hefur þannig lækkað um 43% það sem af er ári.

Eins og fyrr segir voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði Unicredit um 4,6%, Royal Bank of Scotland um 3,9%, Lloyds um 5,8% og Commerzbank um 2,9%.

Barclays bankinn í Bretlandi var þó undantekningin í dag og hækkaði um 3,1%.

Orku- og olíufyrirtæki hækkuðu þó í dag vegna hækkandi olíuverðs. Þannig hækkuðu félög á borð við BP, Shell, BG Group gasframleiðandinn og Tullow Oil um 2,7% - 20%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,5% og munaði þar mestu um Barclays eins og áður hefur komið fram en í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,5% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,8%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,4% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan einnig um 0,4%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,2%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,5% en í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,1%.