Íslendingar hafa fest umtalsvert fé í fasteignum á Spáni, með ríflega 2,3 milljarða króna í beinni fjárfestingu í lok árs í fyrra og hafði hún þá aukist um tæpan milljarð króna á fjórum árum, að sögn greiningardeildar Glitnis sem telur hæglega geta orðið verðlækkun þar á fasteignaverði.

?Aðallega er um að ræða fjárfestingar í íbúðarhúsnæði en íslendingar hafa verið iðnir við að kaupa sér sumarhús á þessum slóðum. Hafa þeir notið góðs af hratt hækkandi íbúðaverði þar í landi en í fyrra hækkaði verð íbúðarhúsnæðis þar um 12% svo dæmi sé tekið. Nú kann hins vegar að vera að það muni hægja á þessum hækkunum," segir greiningardeildin.

Hún segir mikinn hagvöxt hafa verið á Spáni, undanfarin ár. ?Hagvöxtur var þar um 3,4% í fyrra og verður aðeins minni í ár. Þetta er meiri vöxtur en mælst hefur í öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í þessum mikla vexti hefur verðbólgan aðeins látið á sér kræla. Mældist hún 4% í júní síðastliðnum," segir greiningardeildin.

Hraður vöxtur er til að mynda vegna lágs vaxtastigs en stýrivextir á evrusvæðinu, sem Spánn tilheyrir, eru um 3%.

?Skammtímavextir eru því lægri en verðbólgan og hefur svo verið um hríð. Lánsfé hefur þar af leiðandi verið á mjög góðum kjörum. Þetta hefur leitt af sér miklar framkvæmdir og aukinn viðskiptahalla.

Fjárfestingar hafa aðallega falist í mikilli uppbyggingu á fasteignamarkaðnum en fjárfesting jókst þar um 7,2% í fyrra og er reiknað með um 6,3% vexti í ár. Á þessu ári er búist við að viðskiptahallinn nemi um 8,9% af vergri landsframleiðslu og spár gera ráð fyrir 9,8% á næsta ári," segir greiningardeildin.

Viðskiptahalli og verðbólga benda til ójafnvægis í hagkerfinu. ?Líklegasta leið hagkerfisins að jafnvægi er hægur hagvöxtur, hækkandi atvinnuleysi og minnkandi eftirspurn. Liður í þessari þróun gæti hæglega orðið verðlækkun á fasteignamarkaði. Ólíklegt þykir að hagkerfið komi mjúklega niður og sennilegt að það taki mörg ár fyrir Spán og viðskiptalönd þeirra að jafna sig á áralangri þenslu og mikilli lántöku undanfarinna ára," segir greiningardeildin.