Flest bendir til þess að verðlækkun sé framundan á íbúðamarkaði, segir greiningardeild Glitnis sem telur sennilegt að íbúðaverð lækki um fimm til tíu prósent, að nafnvirði, á næstu einu til tveimur árum.

?Vaxtahækkun, minni kaupmáttur og verri aðgangur íbúðakaupenda að lánsfé draga úr eftirspurn á íbúðamarkaði. Hins vegar vex framboð hratt um þessar mundir enda nýbyggingar aldrei fleiri," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir mikinn samdrátt í veltu á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.

?Veltan á íbúðamarkaði hefur dregist saman um 30% á milli ára þegar velta er skoðuð fyrir júlímánuð. Nánar tiltekið reyndist veltan 10,4 milljarðar króna í júlí samanborið við 16,1 milljarða króna í fyrra. Kaupsamningum vegna íbúða hefur snarfækkað að undanförnu," segir greiningardeildin.

427 samningum var þinglýst í júlí, samanborið við 689 samninga á sama tíma í fyrra, sem er um 38% fækkun á milli ára.