Greiningardeild Landsbankans hefur endurskoðað verðmat sitt á Össuri í kjölfar þriggja mánaða uppgjörs. Metur hún gengið á 118,5 krónur á hlut en lokagengi var 114,5 krónur á hlut í gær og mælir með markaðsvogun.

?Frá síðasta verðmati okkar hefur íslenska krónan haldið áfram að styrkjast ásamt því sem vextir hafa verið að hækka á markaðssvæðum Össurar. Báðir þessir þættir hafa neikvæð áhrif á verðmat á Össur,? segir greiningardeildin.

Hún segir afkomu Össurar á fyrsta ársfjórðungi hafi verið undir væntingum. Tekjur félagsins voru í takt við væntingar en samt í lægri mörkum þess sem við gerðum ráð fyrir. Endurskipulagning á sölu- og dreifingarkerfi félagsins í Bandaríkjunum leiddi til samdráttar í sölu á tímabilinu en gert er ráð fyrir að áhrifanna muni gæti í nokkra mánuði til viðbótar. Endurskipulagningunni fylgdi einnig meiri kostnaður en við gerðum ráð fyrir. Bati er í sölu á spelkum og stuðningsvörum í Evrópu eftir nokkra erfiðleika á síðasta ári.

?Samfara nýjum upplýsingum höfum við endurskoðað verðmat okkar og lækkað spá okkar fyrir árið í ár. Við sjáum þó ekki ástæðu, að svo stöddu, til að breyta nema lítillega spá okkar fyrir næsta ár og árin þar á eftir,? segir hún.