Alþjóðlega matsfyrirtækið Moodys Investor Service hefur lækkað einkunn fyrir fjárhagslegan styrkleika Íslandsbanka úr B- í C+, en sú einkunn hafði verið tekin til athugunar til hugsanlegrar lækkunar í nóvember vegna tilboðs Íslandsbanka í BNbank. Moodys hefur staðfest lánshæfiseinkunnir Íslandsbanka hf. Einkunn fyrir skuldbindingar til langs tíma er A1 og fyrir skammtímaskuldbindingar P-1.

"Lánshæfiseinkunnir Íslandsbanka eru staðfestar í mati Moodys og þar eru horfur stöðugar," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka. "Íslandsbanki er sáttur við lánshæfismat sitt, sem er ein af lykilforsendum fyrir góðum aðgangi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hagstæðri verðlagningu á fjármögnun."