Hlutabréfamarkaðir lækkuðu á flestum stöðum í Evrópu í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig lækkaði FTSEurofirst 300 vísitalan um 0,2% eftir að hafa lækkað um 7,8% í gær sem var mesta dagslækkun vísitölunnar í nærri áratug. Þá hefur vísitalan lækkaðu m 33% það sem af er ári.

Eins og fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði Royal Bank of Scotland um 36,7% eftir að orðrómur fór í gang um að forráðamenn bankans hafa leitað til stjórnvalda eftir neyðarláni .

Þá féll HBOS um 22% af sömu ástæðu.

Af öðrum bönkum lækkaði Barclays um 11,1%, Commerzbank um 14%, Deutsche bank um 7,4% og Lloyds um 13% svo dæmi séu tekin.

Þá greinir Reuters fréttastofan frá því að íslensk stjórnvöld hafi tekið yfir Landsbankann í morgun og það hafi valdið nokkrum óróa á breskum fjármálamarkaði.

FTSE 100 vísitalan í Lundúnum hækkaði engu að síður 0,3% og var eina vísitalan í Evrópu sem hækkaði ásamt CAC 40 vísitölunni í París sem hækkaði um 0,5.

Í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1%, í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,1% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,7% eftir að hafa lækkað um 10% í gær, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2,6% og í Osló lækkaði OBX vísitala um 2,7% eftir að hafa lækkað um 9,7% í gær.