Lækkun varð á mörkuðum vestanhafs í dag. Nasdaq lækkaði um 1,25% og stendur vísitalan nú í 2382,85 stigum. Dow Jones lækkaði um 0,85% og S&P 500 lækkaði um 1,05%.

Fjárfestum var ráðlagt að selja í fyrirtækjum á borð við American Express, Wells Fargo og Wachovia og hafði það nokkur áhrif á markaði.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að áhyggjur af frekari niðursveiflu kunni að draga úr neytendavísitölum sem síðan myndi hafa áhrif á fyrrnefnd fyrirtæki. Það var greiningadeild Merrill Lynch sem ráðlagði sölu í fyrirtækjunum.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkun dagsins. Citigroup, Bank of America og J.P. Morgan lækkuðu öll í verði í dag. Þá lækkaði einnig lánafyrirtækið KB Home um 9,2% en fjármálastjóri fyrirtækisins seldi sjálfur 80 þúsund hluti í fyrirtækinu og var það til að veikja stöðu fyrirtækisins nokkuð að því er WSJ greinir frá.

Spenna hjá tæknifyrirtækjum og olía hækkar

Tækniiðnaðurinn lækkaði einnig í dag en hann hækkaði talsvert í síðustu viku þegar fréttir af hugsanlegu yfirtökutilboði Microsoft í Yahoo bárust. Enn hefur ekkert orðið af kaupunum og en í dag lak tölvupóstur til fjömiðla frá Yahoo þar sem fram kemur að tilboð Microsoft sé aðeins „einn af mörgum" möguleikum. Þá hefur Google mótmælt kaupunum og segir það skerða samkeppni á internet markaði.

Yahoo hækkaði um 3,3% í dag á meðan Microsoft lækkaði um 0,8%. Á næstu dögum má búast við niðurstöðu í málinu en lögfræðingar Google segja kaupin ólögleg.

Þá fór olíuverð aftur upp fyrir 90 bandaríkjadali en verð á olíu hækkaði um 1,2% í dag. í lok dags kostaði tunnan 90,02 bandaríkjadali.