Hlutabréf lækkuðu örlítið á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag, fjórða daginn í röð. Í lok dagsins hafði Nasdaq lækkað um 1,67%, Dow Jones um 0,38% og S&P hafði lækkað um 0,90%. Nasdaq vísitalan fór nokkrum sinnum upp fyrir núllið í dag en þegar líða fór á daginn lækkaði hún aftur.

Mikil spenna ríkir í kringum fjármálafyrirtækið E*Trade en samkvæmt Bloomberg.com er jafnvel búist við gjaldþroti fyrirtækisins eftir slæma afkomu síðustu vikur. Þessar sögusagnir urðu til þess að viðskipti með bréf á E*Trade voru með minnsta móti í dag. Hlutabréf fyrirtækisins lækkuðu um 59%.

Exxon lækkaði einnig í dag um 2,31 dali. Google lækkaði um 4,8% og hefur lækkað um 15% á fjórum dögum. Microsoft lækkaði sjötta daginn í röð en þó aðeins um 35 cent.