Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og voru það helst orku- og námufyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar en auk þess lækkaði þýski bankinn Commerzbank um 10% eftir að tilkynnt var um helgina að bankinn myndi kaupa Dresdner Bank.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,4% en hafði um tíma í dag lækkað um tæpt prósent.

Hrávöruframleiðendur lækkuðu í verði í dag þegar ljóst var orðið að fellibylurinn Gústaf myndi ekki valda jafn miklum skaða á olíuframleiðslu í Mexíkóflóa eins og búist var við en í kjölfarið hefur olíuverð lækkað töluvert.

Þannig hafa olíu- og gasfélögin BP, Shell, BG Group, og Tullow lækkað á bilinu 1,7 – 4,5% í dag.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,6%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,2% en í Frankfurt stóð DAX vísitalan í stað við lok markaða.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,2% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,2% sömuleiðis.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,1%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 2,2% en í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan hins vegar um 0,2%.