Almar Örn Hilmarsson, forstjóri lággjaldaflugfélagsins Sterling sem nú er í eigu FL Group, telur að áformuð lækkun flugvallargjalda á flugvellinum í Kaupmannahöfn hafi umtalsverð áhrif og skili sér í auknum fjölda farþega. "Eftir því sem gjöldin lækka því mun meiri verður neyslan," segir Almar.

Rekstaraðilar Kaupmannahafnarflugvallar tilkynntu á dögunum um samkomulag sem gert hafi verið við flugrekstraraðila um lækkun gjalda. Ráðgert er að þau áform komi til framkvæmda á árunum 2006 til 2008.

Almar Örn segir að lækkun flugvallargjalda muni eðlilega ekki hafa mikil áhrif til lækkunar á lægstu fargjöldum félagsins því þar sé álagningin mjög lítil fyrir.

"Auðvitað munu fargjöld samt almennt lækka á markaðnum og það mun vonandi leiða til aukinnar eftirspurnar. Ég tel að þetta hafi umtalsverð áhrif. Þarna er verið að tala um gjald sem 75 krónur danskar (rúmlega 730 krónur íslenskar). Menn eru að selja mikið af miðum á bilinu 500 krónur til 1000 krónur danskar. Þetta sveiflast því frá því að vera kannski 13 til 14% af heildarfargjaldinu og niður í um 8%. Það er því viðbúið að lækkun á flugvallargjaldinu muni lækka fargjöldin.

Opnar nýja möguleika

Það sem þessi 75 krónu skattur hefur líka gert er að hann hefur verið hamlandi fyrir innanlandsflugið og gert því erfitt fyrir. Nú eru komnar brýr yfir hvern einasta læk í landinu. Það hefur hreinlega verið ódýrara að keyra þrátt fyrir að fólk þurfi að borga brúarskatta. Nú fer innanlandsflugið að verða valkostur.

Það sem líka gæti gerst er að fleiri aðilar sjái ástæðu til þess að fljúga til Kaupmannahafnar. Hingað til hefur verið talið margir hafi ekki náð fótfestu hér út af því að þetta gjald hefur verið tiltölulega hátt. Mörg af þessum stóru lággjaldflugfélögum horfa á málið þannig að ef þau nái ekki heildarfargjaldinu niður fyrir ákveðið mark, þá fljúgi þau einfaldlega ekki á staðinn. Núna opnar þetta kannski möguleika fyrir þessa aðila."

Almar Örn segist þó ekki sjá fyrir sér að Ryanair komi til með að fljúga til Kaupmannahafnar þar sem þeir hafi frekar horft á Malmö sem er handan við sundið. EasyJet er þegar með starfsemi á flugvellinum í Kaupmannahöfn og nýtur þá lækkaðra gjalda eins og aðrir. Almar Örn segist þó hvergi banginn við samkeppnina vegna lækkunar gjalda. -- "Við fögnum þessu bara."

-- Hefur ekki komið til tals að þið flyttuð ykkur frá Kaupmannahöfn?

"Já og nei. Það hefur ákveðnar takmarkanir að vera hér að ýmsu leyti. Bæði er að hér er mjög mikið offramboð af flugmiðum á svæðinu. Markaðurinn er ekki nema um tvær til tvær og hálf milljón manna og bæði SAS og fleiri hafa verið með of mikið framboð hér. Vaxtamöguleikarnir í Kaupmannahöfn eru því takmarkaðir. Við erum í sjálfu sér sátt við það sem við höfum hér alla vega til skemmri tíma litið. Ég sé frekar fyrir mér að reynum að beina vextinum inn á aðra staði þar sem okkar markaðshlutdeild er minni og við náum til meiri fjölda." Almar bendir m.a. á að Sterling sé líka með starfsemi í Osló, Stokkhólmi og verði í Helsinki frá og með næsta vori. Þá er Sterling líka í Billund á Jótlandi.