Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag, annan daginn í röð. Nasdaq lækkaði um 0,95%, Dow Jones um 0,28% og Standard & Poor’s 500 um 0,56%.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag varð nokkuð hröð lækkun á mörkuðum fram undir hádegi en sú lækkun fór minnkandi eftir hádegi. Nasdaq fór um tíma yfir núllið en Dow Jones vísitalan fór rússíbanaferð í dag og hækkaði og lækkaði til skiptist og þá nokkuð mikið í einu.

Intel tölvuframleiðandinn lækkaði töluvert eftir að fyrirtækið tilkynnti að salan á fyrsta ársfjórðungi yrði 6,9% undir áætlunun. Fyrirtækið lækkaði um 12% í dag og leiddi lækkun tækni- og hugbúnaðarfyrirtækja í dag sem hafa lækkað um 17% frá því í október þegar þau voru sem hæst.

Eins lækkaði Apple nokkuð eða um 7,4% í dag. Eins og greint var frá í gærkvöldi kynnti Apple ný tæki á Macworld ráðstefnunni í gær en þau hafa hins vegar ekki mætt þeim miklu væntingum sem gerðar voru til ráðstefnunnar.

J.P. Morgan bankinn leiddi hækkun Dow Jones um nokkurn tíma þrátt fyrir að bankinn hefði tilkynnt um 34% minni afkomu en gert hafði verið ráð fyrir á fjórða ársfjórðungi. J.P. Morgan hækkaði um 6,2% í dag.

Eins kynnti Wells Fargo að afkoma bankans á fjórða ársfjórðungi hefði lækkað um 38%. Þrátt fyrir það hækkaði bankinn um 3% í dag.

Þessi minnkandi afkoma bankanna er hins vegar lægri en gert hafði verið ráð fyrir og töluvert minni en Citigroup og telur Market Watch að allar tölur betri en Citigroup séu góðar fréttir eins og viðmælandi orðaði það.

Verðbólga mældist 4,1% í Bandaríkjunum árið 2007 en var 2,5% árið 2006 þannig að hún hefur hækkað talsvert milli ára. Viðmælandi Market Watch telur að bandaríski Seðlabankinn eigi ekki að snúa frá því að lækka stýrivexti núna í janúar en þegar hefur verið gefið í skyn af stjórnendum bankans að stýrivextir verði lækkaðir.

Olíuverð lækkaði í dag og í lok dagsins kostaði tunnan 90,20 dali.