Markaðir í Asíu lækkuðu um 1,5% í dag samkvæmt DJ Asia-Pacific vísitölunni. Að sögn MarketWatch kemur þetta í kjölfar veikleika á bandaríska hlutabréfamarkaðnum, sem lækkaði töluvert fyrir helgi eftir mjög slakan mánuð. Hlutabréf í Evrópu byrja daginn á lækkunum, Euronext 100 hefur lækkað um 1,7% í fyrstu viðskiptum.

Rio Tinto í viðræðum við Kínverja

Hlutabréf í Rio Tinto í Ástralíu hækkuðu um 5,8% eftir að félagið upplýsti að það ætti í viðræðum við Aluminum Corp. of China, eða Chinalco, um mögulega sölu á minnihlutaeign í nokkrum námuframkvæmdum og fjárfestingum í breytanlegum bréfum. Líkur á fjárhagslegri innspítingu frá Kína hjálpar við að draga úr ótta á markaði um að Rio kunni að verða neytt til að gefa út mikið af nýju hlutafé til að greiða niður skuldir, að því er segir í frétt MarketWatch.

Ástralski markaðurinn lækkaði um 1%, í Hong Kong lækkaði markaðurinn um 3,1%, en í Sjanghæ hækkaði markaðurinn hins vegar um 1,7%. Fjármálafyrirtæki drógu markaðinn í Japan niður en hann lækkaði um 1,5%.