Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag og hafa að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ekki verið lægri í þrjú ár.

Líkt og í gær hafa fjárfestar enn áhyggjur af því að sjá fleiri fyrirtæki á borð við Lehman brothers og AIG „rúlla yfir“ eins og einn viðmælandi Bloomberg orðar það.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 2,5% í dag og hefur lækkað um 7,1% það sem af er vikunni.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 2,2%, í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 2% og í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 0,1%.

Í Singapúr hækkaði Straits vísitalan hins vegar um 0,4% en í Ástralíu lækkaði S&P 200 2,4%.