Markaðir lækkuð i Bandaríkjunum í dag, þriðja daginn í röð.

Nasdaq lækkaði um 1,99% og stendur vísitalan í 2346,90 stigum. Dow Jones lækkaði um 2,46% og S&P 500 um 2,91% í dag. S&P 500 vísitalan hefur nú lækkað um 8,6% á þessu ári. Fyrir hvert hlutabréf sem hækkaði lækkuðu sex á móti í Kauphöllinni í New York. Dagurinn byrjaði á því að allar vísitölur hækkuðu en fljótlega fóru allt að lækka og eftir hádegi sýndu vísitölur rauðar tölur.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í kvöld tapaði Merrill Lynch um 7,8 milljarða bandaríkjadala og er þetta fyrsta tap bankans yfir heilt ár síðan 1989. Þá var síðasti ársfjórðungur síðasta árs einstaklega erfiður fyrir bankann en 9,8 milljarða dala halli varð á rekstrinum sem er sá mesti frá upphafi á einum ársfjórðungi.  Bankinn afskrifaði um 23 milljarða dala á árinu 2007.

Merrill lækkaði um 8,3% í dag, Goldman Sachs lækkaði um 2,2% og Bear Stearns lækkaði um 6,3%

Ben Bernanke, bankastjóri bandaríska seðlabankans kom fram fyrir þingnefnd bandaríska þingsins í dag og sagði að horfur ársins hefðu versnað og ekki yrði gert ráð fyrir vexti hagkerfisins á árinu. Bernanke sagði að hagkerfið væri það veikt að það réttlætti örvandi efnahagsaðgerðir en nefndi einnig að ef framkvæmdir kæmu á röngum tíma gætu þær haft þveröfug áhrif. Einnig voru birtar tölur um nýbyggingar í Bandaríkjunum í desember og hafa tölurnar ekki verið lægri síðan 1991.

Það voru þó ekki eingöngu neikvæðar fréttir af mörkuðum í dag. Beiðni um atvinnuleysistryggingar lækkaði og hefur ekki verið lægra síðan í maí á síðasta ári. WSJ telur að það sé merki um að hagkerfið sé ekki staðnað og minnkar horfur á kreppu.