Töluverð lækkun varð á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq lækkaði um 1,66% og er Nasdaq vísitalan nú 2593,38 stig. Dow Jones lækkaði einnig um 1,66% og Standard & Poor's lækkaði um 1,75%. Nasdaq vísitalan fór aldrei yfir núllið í dag.

Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs & Co mælti í morgun með því að fjárfesta seldu bréf sín í Citygroup bankanum. Við þessi skilaboð féllu hlutabréf í Citigroup og hafa ekki verið jafn lág í fjögur ár. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í kvöld er gert ráð fyrir að Citygroup þurfi að afskrifa um 15 milljarða bandaríkjadala á næstu tveimur ársfjórðungum. Citigroup bankinn hefur lækkað um 30% frá því í byrjun október. Fleiri fjármálafyrirtæki lækkuðu í verði og leiddu lækkun dagsins.

General Motors féll um 8,5% í dag og leiddi lækkun fyrirtækja á Dow Jones.

Fyrirtæki sem bjóða heimilis- og byggingarvörur féllu nokkuð í dag. Lowe's lækkaði um 7,6% og Home Depot féll um 3,12%. Lowe's gaf út afkomuviðvörun vegna þriðja ársfjórðungs. Þetta þykja slæm tíðindi og gefa til kynna að lítil sala verði nú þegar nálgast hátíðirnar. Bloomberg.com greinir frá því að búist er við lægstu sölu á þessum markaði í fimm ár.

Olíuverð hækkaði einnig í dag um 80 cent og verðið á tunnuna nú 94,64 bandaríkjadalir.