Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar varð markaðurinn vestanhafs fyrir miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að ekkert yrði af yfirtöku efnaframleiðandans Dow Chemical á Rohm & Haas.

Dow Chemical féll um 19% í dag eftir að opinber fjárfestingasjóður Kúveit hætti við að fjárfesta í félaginu fyrir 9 milljarða Bandríkjadali eins og búist hafði verið við en fjármagnið ætlaði Dow Chemicala að nota til að kaupa framleiðandann Rohm & Haas, sem einnig lækkaði mikið í kjölfarið eða um 16%.

Nasdaq vísitalan lækkaði í dag um 1,3% en Dow Jones og S&P 500 vísitölurnar um 0,4%.

Olíuverð hélt áfram að hækka en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 39,97 dali og hækkaði þar með um 6% í dag. Olíuverð hefur hækkað í utanþingsviðskiptum um helgina vegna átakanna fyrir botni Miðjarahafs milli Ísraelshers og Hamas samtakanna.