Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Evrópu í dag og segir Reuters fréttastofan að áhyggjur fjárfesta af fjármálamörkuðum fari lítið dvínandi og hafi áhrif á markaði út um allan heim.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 2,1%. Mikið reiki hefur verið á vísitölunni síðustu daga en á þriðjudag féllu hlutabréf töluvert strax við opnun og flestar vísitölur lækkuðu strax um rúmlega 2%. Eitthvað dró úr þeirri lækkun og hafði FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað um 1,7% við lok markaða.

Í gær tók hún hins vegar við sér á ný og hækkaði um 1,4%.

Með lækkandi olíuverði lækkuð olíufélög nokkuð í dag. Þannig lækkuðu BP, Shell og Total um 2,5% - 3% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,1% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,3%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,5% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,7%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,5%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,9% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,9%.