Nánast allir hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag eftir að hafa hækkað síðustu fimm daga.

Að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst málm- og námufyrirtæki ásamt öðrum framleiðslufyrirtækjum sem leiddu lækkanir dagsins.

Koparverð lækkaði um 1,8%, nikkel um 1,2% og stál um 2% en allt hafði þetta töluverð áhrif á fyrrnefnda geira.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, lækkaði um 0,7% í dag en hafði þó fyrr um daginn lækkað um rúmt 1%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,4%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,9% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,1%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,8%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,5% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,3%.