*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 4. nóvember 2004 15:26

Lækkun laxveiðileyfa hjá SVFR í Viðskiptaþættinum

ásamt miðborginni jólabókum og útrás íslenskrar tónlistarmanna

Ritstjórn

Söluskrá SVFR fyrir árið 2005 og verðlagning á veiðileyfum verður til umræðu í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu kl. 16 í dag. Umsjónarmenn eru Hörður Vilberg og Sindri Sindrason blaðamenn á Viðskiptablaðinu en viðmælendur þeirra eru Gylfi Gautur Pétursson, varaformaður SVFR, og Eiríkur St. Eiríksson stjórnarmaður. Söluskráin er nú á leið til félagsmanna í pósti en búast má við því að ýmislegt í skránni veki verðskuldaða athygli. Verð á veiðileyfum á fjölmörgum veiðisvæðum lækkar milli ára, annars staðar stendur verðið í stað og eiginlegar verðhækkanir eru teljandi á fingrum annarrar handar.

Í þættinum í dag verður einnig fjallað um stöðu verslunar í miðborginni, en verslunum í miðborg Reykjavíkur hefur fjölgað um fjórar frá fyrra ári. Þær voru 304 talsins síðasta haust á meðan þær voru 300 á sama tímabili í fyrra. Þetta er í fyrsta sinn á síðustu níu árum sem verslunum á þessu svæði fjölgar miðað við fyrra ár, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Þróunarfélagi miðborgarinnar. Til að segja okkur meira um málið kemur hingað til okkar Einar Örn Stefánsson hjá Þróunarfélagið miðborgarinnar en spurningin er hvort flótta verslana úr miðborginni sé loks lokið.

Jólin nálgast óðum og bókaútgefendur eru eflaust flestir komnir í gírinn fyrir jólabókaflóðið alræmda. Kristján B. Jónsson, þróunarstjóri hjá bókaútgáfunni Eddu ætlar að líta við hjá okkur og segja okkur frá þeim bókum sem félagið gefur út að þessu sinni. Kristján verður í Viðskiptaþættinum klukkan hálf fimm.

í síðasta hluta þáttarins hringjum við út í heim, nánar tiltekið til Lundúna þar sem Anna Hildur Hildibrandsdóttir starfar, en hún hefur unnið mikið með íslenskum hljómsveitum sem eru að feta sín fyrstu spor á erlendri grundu. Anna Hildur hefur einnig unnið að Icelandic Airwaves hátíðunum og mörgu öðru sem hún ætlar að segja okkur frá en hún starfar nú meðal annars sem söluráðgjafi fyrir Útflutningsráð og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna sölu á tónlist erlendis.

Þátturinn er sendur út á FM 99,4 og er endurfluttur klukkan eitt í nótt. Á föstudögum klukkan 16 á Útvarpi Sögu eru endurflutt valin viðtöl út þáttum vikunnar.